Mark Lewisohn nýtur viðurkenningar sem fremsti sérfræðingur um sögu Bítlanna og vann lengi fyrir
þá, meðal annars við gerð Anthology útgáfu þeirra. Mark hefur rannsakað allt sem tengist þessari
mögnuðu hljómsveit í þaula og gefið út nokkrar bækur um Bítlana. Stærsta verkefni hans er þó
þriggja binda útgáfa um sögu Bítlanna sem hann vinnur nú að og ber yfirheitið: Öll þessi ár. Mark
hefur sent frá sér fyrstu bókina og hún er nú að koma út á íslensku. Á bak við hana liggur tíu ára
rannsóknarvinna. Bókin heitir á ensku The Beatles tune in en hefur hlotið íslenska nafnið Bítlarnir
telja í.
Bókaútgáfan Hringur er útgefandi bókarinnar á Íslandi og kom hún út 2. nóvember 2015. Hún er um
1000 blaðsíður og í henni má finna allt sem tengist uppvaxtarárum Bítlanna og því hvernig þeir urðu
vinsælasta hljómsveit sögunnar.
Á meðal annarra bóka Marks Lewisohn má nefna metsölubækurnar Recording Sessions, The
Complete Beatles Chronicle og hann er einnig meðhöfundur bókarinnar The Beatles´ London. Hann er
eini starfandi Bítlasagnfræðingurinn og tók þátt í gerð sjónvarpsþátta, DVD mynda, geisladiska og
bóka fyrir Anthology safn Bítlanna sjálfra. Mark hefur einnig unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum
fyrir Bítlana auk verkefna sem hann hefur unnið sjálfstætt. Hann er kvæntur, á tvo uppkomna syni, og
býr í Englandi.
Viðtal við Mark í DV í nóvember 2015 http://www.dv.is/menning/2015/11/27/mark-lewisohn/
Hér má sjá fyrirlestur sem Mark hélt í Iðnó í Nóvember 2015 vegna útkomu bókarinnar á íslensku.